Auðævi á Ströndum

Lilja í skákhöllinni í DjúpavíkGuðfríður Lilja Grétarsdóttir birti þennan snilldarlega pistil í Mogganum um helgina. Hún hefur svo sannarlega sýnt hug sinn í verki, fyrst með því að gefa verðlaun sín af skákmótinu í Djúpavík í söfnunina og síðan með listaverkakaupum í Hótel Glym. Gefum Lilju orðið:

"Og er ég ekki spámaður en þó get ég að þitt nafn sé uppi meðan veröldin er byggð," sagði norskur farmaður sem gaf stráklingnum Urðarketti af Ströndum eigur sínar allar og nafnið Finnbogi um leið. Norskir jarlar og grískir konungar endurómuðu síðar þennan spádóm um drenginn. Heimurinn kunni að meta Finnboga ramma þótt Ísland hefði borið hann út til að deyja.

Finnbogastaðir eru nefndir eftir Finnboga ramma og þegar þeir brunnu til kaldra kola fyrir nokkrum vikum hvarf eitt af átta lifandi býlum í fámennasta og afskekktasta sveitasamfélagi þjóðarinnar. Það þarf vart að taka fram hversu mikið áfall þetta er bóndanum sem missti allt sitt og forfeðranna í eldinum. Það sem er e.t.v. erfiðara að lýsa er áfallið sem ríður yfir heilt samfélag þegar eitt bú af svo fáum fellur í valinn.

Árneshreppur hefur um aldir lifað af margvíslegum hlunnindum lands og sjávar. Gróskumikill landbúnaður og sauðfjárstofn, æðarvarp, rekasæld, fiskveiðar, selveiðar og jafnvel hákarlaveiðar hafa verið stundaðar í hreppnum. Enn lifir þar og starfar fólk sem man og tók þátt í vinnubrögðum sem lítið höfðu breyst í gegnum aldirnar. Menningarminjar eru við hvert fótmál: Vitum við Íslendingar hvílík auðævi slík lifandi byggð er í heiminum í dag?

Í Árneshreppi hef ég smakkað ljúffengasta lambalæri og hangikjöt um ævina, heimaalið, heimaslátrað og heimalagað: sjálfbærni í sinni tærustu mynd. Hvers vegna er Strandakjöt ekki sérstakt vörumerki? Ég hef líka teflt þar skák í eftirminnilegasta skáksal Síldarverksmiðjunnar í Djúpavík, steinsnar frá sjarma hótelsins. Ég hef notið gómsætrar Strandakleinu á Kaffi Norðurfirði og dáðst að ljósmóðurtólum í minjahúsinu Kört.

Í blómlegri framtíð hreppsins er enginn að tala um að hverfa aftur til fortíðar. Þvert á móti. Tækifærin blasa við sem byggjast á hinu gamla til að skapa eitthvað nýtt – minjum, arfleifð, afurðum, menningu, landslagi, mannlífi, samfélagi. En ef snjómokstrar hætta um miðjan vetur, ef kennari nær ekki í námsefni því að tölvutengingin virkar ekki – hvað hverfur þá með fólkinu sem fer, samfélaginu sem eyðist?

Lifandi menningarlandslag og samfélag á gömlum merg eru auðæfi í sjálfu sér sem boða ný tækifæri til framþróunar ef að þeim er hlúð. Slíkt samfélag er eftirsóknarvert í heiminum í dag. Þetta vita Norðmenn, sem öðrum fremur kunna að hlúa að eigin strandbyggðum og draga fram fjölbreytileika þeirra og ríkidæmi. Framtíð Árneshrepps er björt ef einungis brot af hugtakinu "jafnræði til búsetu" fær raunverulegt inntak í íslenskum samtíma. Hvenær verður það?

Þau ykkar sem enn hafið ekki heimsótt Árneshrepp á Ströndum: Látið ekki happ úr hendi sleppa. Sumarið er ungt og öllum tekið fagnandi!

Við minnum á söfnun Félags Árneshreppsbúa til styrktar Guðmundi Þorsteinssyni á Finnbogastöðum. Reikningsnúmer: 1161-26-001050 Kennitala: 4510892509.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband