20.6.2008 | 10:30
Linda og Písl horfa á húsið sitt hverfa
Læðan Písl bjargaðist úr eldhafinu á Finnbogastöðum á mánudaginn, líklega þegar rúða sprakk í stofunni. Písl man tímana tvenna, því hún er orðin 18 ára gömul.
Hér er Písl í fanginu á Lindu Guðmundsdóttur frá Finnbogastöðum. Þær eru að horfa á skurðgröfu jafna húsið við jörðu.
Vonandi líður ekki á löngu áður en Písl hefur eignast nýtt heimili. Hún hefur haldið til í gamla fjósinu á Finnbogastöðum eftir brunann, og fengið mat sinn og mjólk þangað.
Við minnum á söfnun Félags Árneshreppsbúa til styrktar Guðmundi Þorsteinssyni á Finnbogastöðum. Reikningsnúmer: 1161-26-001050 Kennitala: 4510892509
Bílar og akstur | Breytt s.d. kl. 10:32 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
17.6.2008 | 21:26
Flaggað á Finnbogastöðum
Íslenski fáninn blakti tignarlega við Finnbogastaði á þjóðhátíðardaginn. Enn rauk úr rústum íbúðarhússins en fáninn var til merkis um að endurreisnin á Finnbogastöðum er hafin.
Við minnum á söfnun Félags Árneshreppsbúa til styrktar Guðmundi Þorsteinssyni á Finnbogastöðum. Reikningsnúmer: 1161-26-001050 Kennitala: 4510892509
17.6.2008 | 21:16
Engin uppgjöf
Allir íbúar Árneshrepps, auk fjölmargra gesta, komu saman á þjóðhátíðardaginn við vígslu kaffihúss í Norðurfirði. Þar með eru tvö veitingahús í hreppnum, Hótel Djúpavík og Kaffi Norðurfjörður.
Guðmundur á Finnbogastöðum lét sig ekki vanta. Hér er hann með börnum sínum, Lindu og Þorsteini, sem lögðu af stað hingað norður um leið og þau fréttu af brunanum á Finnbogastöðum.
Enginn uppgjafartónn er í Munda og hans fólki. Þvert á móti: Nýtt hús skal rísa fyrir veturinn.
Við minnum á söfnun Félags Árneshreppsbúa. Reikningsnúmer: 1161-26-001050 Kennitala: 4510892509
17.6.2008 | 17:43
Áfram Finnbogastaðir
Íbúðarhúsið á Finnbogastöðum í Trékyllisvík er rústir einar, eftir stórbrunann 16. júní. Tjón Guðmundar Þorsteinssonar bónda er gífurlegt, og því hefur Félag Árneshreppsbúa hrundið af stað söfnun honum til stuðnings. Takmarkið er einfalt: Nýtt hús á Finnbogastöðum fyrir veturinn.
Kristmundur Kristmundsson formaður Félags Árneshreppsbúa sendi í gær út svohljóðandi tilkynningu:
Þar sem ljóst er að Guðmundur Þorsteinsson hefur misst hús sitt og innbú í brunanum hefur félagið opnað styrktarreikning til handa Guðmundi.
Reikningsnúmer: 1161-26-001050 Kennitala: 4510892509
Er það bón mín og beiðni að allir sem aflögu eru færir um stórt eða smátt leggi þessu lið og bregðist við hið fyrsta.
Á þessari síðu ætlum við að segja fréttir frá Finnbogastöðum, söfnuninni og uppbyggingunni á Finnbogastöðum.