Endurreisn Finnbogastaða snertir okkur öll

Mundi og Einar KristinnEinar Kristinn Guðfinnsson landbúnaðarráðherra, Guðni Ágústsson fv. landbúnaðarráðherra og Össur Skarphéðinsson byggðamálaráðherra birtu sameiginlegt ávarp í Bændablaðinu:

Mánudaginn 16. júní brann íbúðarhúsið að Finnbogastöðum í Árneshreppi til kaldra kola. Guðmundur bóndi Þorsteinsson slapp við illan leik úr eldhafinu, en engu varð bjargað.

Ætt Guðmundar bónda hefur búið undir Finnbogastaðafjalli í tólf kynslóðir að minnsta kosti. Faðir hans reisti húsið sem brann árið 1938 og þar fæddist Guðmundur árið áður en Ísland varð lýðveldi. Hann er því 65 ára, nú þegar hann hefur misst eigur sínar og íbúðarhús.

En Guðmundur bóndi ætlar ekki að gefast upp. Hann er dyggilega studdur af börnum sínum, fjölskyldu, sveitungum og vinum. Nýtt íbúðarhús skal rísa að Finnbogastöðum áður en vetur gengur í garð á Ströndum.

Árneshreppur er minnsta og afskekktasta sveitarfélag á Íslandi, útvörður okkar í norðri. Þar er varðveitt merkileg saga um baráttu Íslendinga við ysta haf, saga sem við megum aldrei gleyma. Nú eru að vísu aðeins um 50 einstaklingar búsettir í hreppnum, en mannlífið þar er eigi að síður þróttmikið og fjölbreytt. Sauðfjárbúskapur er undirstaða byggðarinnar og nú eru í hreppnum 10 bú á 8 bæjum.

Í svo litlu samfélagi skiptir hver bær, hver einstaklingur, miklu máli fyrir heildina – og ekki bara Árneshrepp, heldur alla sem láta sig byggð á Íslandi varða. Endurreisn Finnbogastaða snertir okkur öll.

Nú hefur Félag Árneshreppsbúa stofnað styrktarreikning fyrir Guðmund á Finnbogastöðum, enda bæta tryggingar aldrei að fullu hið gríðarlega tjón og missi sem hann varð fyrir.

Við hvetjum alla til að leggja góðu máli lið, og tökum undir með vinum Guðmundar á Finnbogastöðum: Margt smátt gerir eitt hús við ysta haf.

Myndin: Einar Kristinn Guðfinnsson var á ferð í Árneshreppi á fimmtudag og föstudag. Hér eru ráðherrann og Mundi á Finnbogastöðum í Kaffi Norðurfirði, eftir velheppnaðan spjallfund á föstudaginn.

Við minnum á söfnun Félags Árneshreppsbúa til styrktar Guðmundi Þorsteinssyni á Finnbogastöðum. Reikningsnúmer: 1161-26-001050 Kennitala: 4510892509.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband