Uppbygging Finnbogastaða skiptir okkur öll máli

Tóm hamingja"Þetta hefur gengið mjög vel hjá okkur," segir Gunnar Melsteð um fata- og flóamarkað sem Rauði krossinn stóð fyrir á Hamingjudögum á Hólmavík nú um helgina.

Ágóðinn rennur óskiptur í söfnun til endurreisnar Finnbogastaða, auk þess sem Rauði krossinn leggur sitt af mörkum.

Gunnar sagðist vona að viðburðurinn um helgina á Hólmavík verði öðrum hvatning til að halda söfnuninni áfram af fullum krafti:

"Það er gríðarlega mikilvægt að byggja upp á Finnbogastöðum. Það skiptir alla sveitina máli -- og okkur öll."

Við minnum á söfnun Félags Árneshreppsbúa til styrktar Guðmundi Þorsteinssyni á Finnbogastöðum. Reikningsnúmer: 1161-26-001050 Kennitala: 4510892509


Mundi og krossarnir á Finnbogastöðum

Mundi og krossarnir á Finnbogastöðum"Ég er að gæla við að geta haldið jólin og held að það sé ekkert óraunhæft -- ef allt gengur að óskum," segir Guðmundur á Finnbogastöðum í efnismiklu viðtali við Morgunblaðið í dag, sunnudag.

Viðtal og myndir eru eftir Pétur Blöndal, blaðamann á Morgunblaðinu, sem hér var á ferð um síðustu helgi, og tók virkan þátt í Skákhátíð íÁrneshrepps.

Guðmundur lýsir því hvernig eldurinn gaus upp, svo engu varð bjargað. Hann segir líka frá viðbrögðum sveitunga sinna: "Það voru allir komnir á nóinu."

Fjölskylda Guðmundar hefur búið undir Finnbogastaðafjalli í a.m.k. tólf kynslóðir og faðir hans reisti húsið sem brann. Þar fæddist Mundi fyrir 65 árum.

Allar eigur Guðmundar brunnu til ösku á fáeinum klukkustundum 16. júní, en daginn eftir hafði hann úr að velja fimm alklæðnuðum!

"Ef eitthvað kemur upp á, þá rjúka allir til," segir Mundi. "Jafnvel þó þeir hafi staðið í blóðugum slagsmálum. Ef eitthvað kemur upp á standa menn hlið við hlið. Þetta gengur um. Þér er aldrei svo illa við náungann að þú hjálpir honum ekki í nauð."

Myndin: Mundi á Finnbogastöðum. Búið er að jafna rústirnar við jörðu og moka mold yfir. Þarna hvíla Tíra og Kolla, hinir traustu og góðu vinir sem fórust í eldhafinu.

Við minnum á söfnun Félags Árneshreppsbúa til styrktar Guðmundi Þorsteinssyni á Finnbogastöðum. Reikningsnúmer: 1161-26-001050 Kennitala: 4510892509


Hamingjudagar: Rauði krossinn í lið með Munda

Mundi og Helgi í DjúpavíkNú ættu Strandamenn og gestir á Hamingjudögum á Hólmavík að endurnýja fataskápinn: Rauði krossinn stendur fyrir fata- og flóamarkaði til styrktar Guðmundi á Finnbogastöðum.

Hamingjudagar á Hólmavík fara fram nú um helgina, með margvíslegri skemmtan og viðburðum.

Í fréttatilkynningu kemur fram að Rauði krossinn þarf á sjálfboðaliðum úr hópi Rauða kross fólks að halda sem hefur tíma aflögu á laugardeginum (frá 13:30-16:00) til að afgreiða í básnum á Hamingjudagahátíðinni. Áhugasamir geta haft samband við Gunnar Melsted í 451-3389 / 690-3904 eða í netfangið gmelsted@mi.is.

Við minnum á söfnun Félags Árneshreppsbúa til styrktar Guðmundi Þorsteinssyni á Finnbogastöðum. Reikningsnúmer: 1161-26-001050 Kennitala: 4510892509


Opið í hálsinn

Sólskinsbros í maílok 2008Eftir Elísabetu Jökulsdóttur.

Það er ekki fyrir venjulegar stelpur að verða ástfangnar af Strandamönnum, ég var sautján ára og þurfti að leggja á mig langt og strangt ferðalag um hávetur tilað hitta minn heittelskaða sem bjó á Seljanesi við ysta haf þarsem ísbirnir gengu sjálfala í fjörunni.
 
En ég taldi það ekki eftir mér, reif mig lausa úr hamborgarasjoppunni sem ég var að vinna í, hoppaði uppí næstu flugvél sem flaug meðfram hvössum fjallstoppunum og lenti á Gjögri sem gat alveg einsog verið heimsendir en jafn rómantískur staður fyrir þvi.
 
En þarna tók Mundi á Finnbogastöðum á móti mér og skilaði mér áleiðis í fang ástmannsins. Hann hló með öllu andlitinu, hlátur hans bergmálaði í allri Víkinni, ég þekkti fólkið hans og Gyðu á Finnbogastöðum. Hún var símastjóri í hreppnum og hafði alla þræði í hendi sér, orðin goðsagnapersóna fyrir löngu, rammgöldrótt.
 
Mundi byrjaði á því að fara með mig til Gyðu og gefa mér að borða einsog ég hefði aldrei fengið að borða áður og síðan héldum við af stað uppá Eyrarhálsinn. Það var snjóstormur og ískuldi.
 
Jæja, sagði Mundi á Finnbogastöðum, þú ert komin eina ferðina enn.
 
Já, sagði ég.
 
Og alltaf með jafn opið í hálsinn, sagði hann.
 
Opið í hálsinn, át ég upp. 
 
Mundi svaraði engu en keyrði hestana átta áfram svo þessi prinsessa með opið í hálsinn gæti svifið á vit ástarinnar í Finnbogastaðavagninum.
 
Kannski voru þetta ekki átta hestar, kannski var þetta bara vélsleði.
 
En hann hafði gefið mér mynd af mér sem ég sá ekki sjálf.
 
Þetta var árið 1975 og árið 2003 þegar ég gaf út ástaljóðin í Vængjahurðinni segir þar einmitt var stelpu sem var alltaf með opið í hálsinn. 

Til í að elska þótt enginn elskaði mig,
hárið frosið og opið í hálsinn.
 
Söng ein um ástina fyrir hafið
og hafið varð eitt með himninum.

Svona geta ljóðin verið lengi að ferðast. En Mundi var ekki nema örstund að skutla mér uppá Eyrarhálsinn og svo hló hann jafn rosalega þegar hann kvaddi.
 
En svona manni sem hefur verið í þjónustu ástarinnar, hann ber að styrkja með ráðum og dáð þegar sá hryllilegi atburður gerist að húsið hans brennur og þessvegna vil ég minna á söfnunarreikninginn.

Við minnum á söfnun Félags Árneshreppsbúa til styrktar Guðmundi Þorsteinssyni á Finnbogastöðum. Reikningsnúmer: 1161-26-001050 Kennitala: 4510892509

 


Áfram Finnbogastaðir

Tíra og MundiAldrei hefði ég trúað því að ég ætti eftir að horfa heim að Finnbogastöðum og sjá ekki bæinn sem Steini, pabbi Munda, reisti sér.

Bæjarhóllinn stendur nú auður og aðeins minningarnar einar eftir.

Finnbogastaðir hafa mann fram af manni verið höfðingjasetur og er ósk okkar sú að þannig verði það áfram. Nýtt hús muni rísa.

Allt sem saman safnast styttir biðina í að sjá nýtt íbúðarhús á Finnbogastöðum.

Við fögnum því af heilum hug að engin uppgjöf skuli vera í Munda og börnunum hans þótt stór áföll hafi riðið yfir.

Missir Finnbogastaða væri missir okkar allra, enda er Árneshreppur minnsta byggðarlag landsins og munar um hvern þann bæ sem helst í byggð. Okkur finnst því mikilvægt að styðja Munda, í endurbyggingu Finnbogastaða, eins vel og við getum, en betur má ef duga skal!

Mig langar því að biðja alla þá sem þetta lesa, og hafa enn ekki stutt söfnunina, að ljá henni lið og hvetja aðra til að gera slíkt hið sama.

Ég vil þakka þeim innilega sem hafa lagt söfnuninni lið með framlögum sínum og geri orð Hrafns Jökulssonar að mínum: Margt smátt gerir eitt hús við ysta haf.

Með kærri kveðju,

Kristmundur Kristmundsson,  formaður félags Árneshreppsbúa

Myndin: Tíra og Mundi í smalamennsku haustið 2007.

Við minnum á söfnun Félags Árneshreppsbúa til styrktar Guðmundi Þorsteinssyni á Finnbogastöðum. Reikningsnúmer: 1161-26-001050 Kennitala: 4510892509


Síðasta myndin

Tíra og KollaTíra og Kolla kúra í fjárhúsunum á Finnbogastöðum.

Myndin var tekin í lok maí og er trúlega sú síðasta sem tekin var af þessum glaðbeittu smalahundum og góðu félögum.

Þær lokuðust inni í kjallaranum á Finnbogastöðum í eldsvoðanum 16. júní.

Við minnum á söfnun Félags Árneshreppsbúa til styrktar Guðmundi Þorsteinssyni á Finnbogastöðum. Reikningsnúmer: 1161-26-001050 Kennitala: 4510892509


Sýnum samstöðu, örlæti og hlýhug

Andrés MagnússonÞað eru blikur á lofti í efnahagslífinu, sumir blankir, margir uggandi. En það er hjóm eitt hjá því að horfa upp á ættaróðalið fuðra upp og allar eigurnar með. Fyrir hálfsjötugan mann. Ég skora því á lesandann að sýna örlæti, samstöðu og hlýhug með því að leggja Munda hjálparhönd. Framlag hvers og eins þarf ekki að vera mikið, en margt smátt gerir eitt stórt.

Svo skrifar Andrés Magnússon blaðamaður á bloggsíðu sinni, og við tökum heilshugar undir þessi góðu hvatningarorð. Greinina í heild má lesa með því að smella hér.

Látið okkur vita af skrifum á netinu um endurreisn Finnbogastaða. Póstfang Hrafns Jökulssonar er hrafnjokuls@hotmail.com.

Við minnum á söfnun Félags Árneshreppsbúa til styrktar Guðmundi Þorsteinssyni á Finnbogastöðum. Reikningsnúmer: 1161-26-001050 Kennitala: 4510892509


Kört með hæsta boð í gríska glæsitaflið

Valgeir og RóbertMinjahúsið Kört í Trékyllisvík átti hæsta boð í taflsett sem boðið var upp á Minningarmóti Páls Gunnarssonar í Djúpavík um helgina. Það var slegið á 50 þúsund krónur, sem runnu óskiptar í söfnun til endurreisnar Finnbogastaða.

Grísku taflmennirnir eru nú til sýnis í minjahúsinu Kört, en þangað ættu allir að fara sem leggja leið sína í Árneshrepp.

Hér á síðunni hefst innan tíðar uppboð á öðru taflsetti, þar sem borðið er áritað af sjálfum Kasparov.

Myndin: Valgeir í Árnesi sá til þess að taflið góða verður varðveitt í Árneshreppi. Hér spjallar hann við Róbert Harðarson skákmeistara.

Við minnum á söfnun Félags Árneshreppsbúa til styrktar Guðmundi Þorsteinssyni á Finnbogastöðum. Reikningsnúmer: 1161-26-001050 Kennitala: 4510892509


Mundi kominn með tafl frá Kasparov

Mundi, KasparovVið upphaf Minningarmóts Páls Gunnarssonar í Djúpavík var einn af keppendum heiðraður, Guðmundur Þorsteinsson bóndi á Finnbogastöðum.

Íbúðarhúsið á Finnbogastöðum brann til kaldra kola, en Guðmundur komst með naumindum úr eldinum. Allt brann, nema eitt viskastykki sem Guðmundur notaði sem skýluklút í reyknum.

Hrafn Jökulsson færði Guðmundi gjöf frá Hróknum, taflborð áritað af Gary Kasparov fv. heimsmeistara, ásamt eðalskáksetti.

Guðmundur tefldi við Helga Ólafsson stórmeistara í 1. umferð mótsins, og sýndi hinum margfalda Íslandsmeistara harða mótspyrnu. Mundi fékk 2 vinninga af 4, og skemmti sér konunglega, einsog aðrir keppendur á Pálsmótinu.

Milli Hrafns og Munda sjást meistarar tveir: Guðmundur í Ávík og Helgi Ólafsson.

Við minnum á söfnun Félags Árneshreppsbúa til styrktar Guðmundi Þorsteinssyni á Finnbogastöðum. Reikningsnúmer: 1161-26-001050 Kennitala: 4510892509


Húsið að Finnbogastöðum jafnað við jörðu

FinnbogastaðirÞað var tregablandin stund á Finnbogastöðum í gærkvöldi þegar skurðgrafa var notuð til að jafna íbúðarhúsið við jörðu.

Húsið var gjörónýtt eftir brunann á mánudag og engu varð bjargað úr eldhafinu.

Guðmundur á Finnbogastöðum, sem tekið hefur skaðanum af miklu æðruleysi, er þegar byrjaður að undirbúa uppbyggingarstarfið, ásamt börnum sínum, fjölskyldu og vinum.

Í kvöld mun Guðmundur taka sér hlé frá amstrinu, og tefla á Minningarmóti Páls Gunnarssonar í Djúpavík.

Við minnum á söfnun Félags Árneshreppsbúa til styrktar Guðmundi Þorsteinssyni á Finnbogastöðum. Reikningsnúmer: 1161-26-001050 Kennitala: 4510892509


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband