Fyrsta skóflustungan að nýju húsi á Finnbogastöðum!

Fyrsta skóflustungan!Stóra stundin er runnin upp á Finnbogastöðum: Fyrsta skóflustungan að nýju íbúðarhúsi var tekin föstudaginn 22. ágúst og er stefnt að því að húsið rísi nú í haust.

Allt stefnir í að Mundi á Finnbogastöðum og fjölskylda haldi jólin í nýju húsi á hinu forna höfuðbóli á Ströndum.

Hrafn Jökulsson fékk þann heiður að taka fyrstu skóflustunguna, en síðan tók Ásbjörn í Djúpavík við á gröfunni. Verkinu miðar vel áfram, enda ekki einu sinni tekin pása til að fylgjast með glæstum sigri Íslendinga á Spánverjum í Peking.

Ási Djúpavíkurjarl mættur með gröfuna.Nýja húsið rís rétt fyrir neðan gamla bæjarhólinn á Finnbogastöðum, og komið grænt ljós frá fornleifafræðingum og byggingafulltrúum. Um er að ræða einingahús, smíðað í Kanada, sem kemur til landsins snemma í september.

Aðeins eru rúmlega tveir mánuðir frá brunanum mikla, 16. júní, þegar ættaróðal Guðmundar Finnbogasonar og allar persónulegar eigur urðu eldi að bráð. Ótalmargir hafa sýnt Guðmundi og fjölskyldu stuðning í verki, og hefur söfnun Félags Árneshreppsbúa gengið langt framar vonum.

Hér á síðunni munum við segja fréttir á næstunni af gangi mála á Finnbogastöðum.

Við minnum á söfnun Félags Árneshreppsbúa til styrktar Guðmundi Þorsteinssyni á Finnbogastöðum. Reikningsnúmer: 1161-26-001050 Kennitala: 4510892509.


Auðævi á Ströndum

Lilja í skákhöllinni í DjúpavíkGuðfríður Lilja Grétarsdóttir birti þennan snilldarlega pistil í Mogganum um helgina. Hún hefur svo sannarlega sýnt hug sinn í verki, fyrst með því að gefa verðlaun sín af skákmótinu í Djúpavík í söfnunina og síðan með listaverkakaupum í Hótel Glym. Gefum Lilju orðið:

"Og er ég ekki spámaður en þó get ég að þitt nafn sé uppi meðan veröldin er byggð," sagði norskur farmaður sem gaf stráklingnum Urðarketti af Ströndum eigur sínar allar og nafnið Finnbogi um leið. Norskir jarlar og grískir konungar endurómuðu síðar þennan spádóm um drenginn. Heimurinn kunni að meta Finnboga ramma þótt Ísland hefði borið hann út til að deyja.

Finnbogastaðir eru nefndir eftir Finnboga ramma og þegar þeir brunnu til kaldra kola fyrir nokkrum vikum hvarf eitt af átta lifandi býlum í fámennasta og afskekktasta sveitasamfélagi þjóðarinnar. Það þarf vart að taka fram hversu mikið áfall þetta er bóndanum sem missti allt sitt og forfeðranna í eldinum. Það sem er e.t.v. erfiðara að lýsa er áfallið sem ríður yfir heilt samfélag þegar eitt bú af svo fáum fellur í valinn.

Árneshreppur hefur um aldir lifað af margvíslegum hlunnindum lands og sjávar. Gróskumikill landbúnaður og sauðfjárstofn, æðarvarp, rekasæld, fiskveiðar, selveiðar og jafnvel hákarlaveiðar hafa verið stundaðar í hreppnum. Enn lifir þar og starfar fólk sem man og tók þátt í vinnubrögðum sem lítið höfðu breyst í gegnum aldirnar. Menningarminjar eru við hvert fótmál: Vitum við Íslendingar hvílík auðævi slík lifandi byggð er í heiminum í dag?

Í Árneshreppi hef ég smakkað ljúffengasta lambalæri og hangikjöt um ævina, heimaalið, heimaslátrað og heimalagað: sjálfbærni í sinni tærustu mynd. Hvers vegna er Strandakjöt ekki sérstakt vörumerki? Ég hef líka teflt þar skák í eftirminnilegasta skáksal Síldarverksmiðjunnar í Djúpavík, steinsnar frá sjarma hótelsins. Ég hef notið gómsætrar Strandakleinu á Kaffi Norðurfirði og dáðst að ljósmóðurtólum í minjahúsinu Kört.

Í blómlegri framtíð hreppsins er enginn að tala um að hverfa aftur til fortíðar. Þvert á móti. Tækifærin blasa við sem byggjast á hinu gamla til að skapa eitthvað nýtt – minjum, arfleifð, afurðum, menningu, landslagi, mannlífi, samfélagi. En ef snjómokstrar hætta um miðjan vetur, ef kennari nær ekki í námsefni því að tölvutengingin virkar ekki – hvað hverfur þá með fólkinu sem fer, samfélaginu sem eyðist?

Lifandi menningarlandslag og samfélag á gömlum merg eru auðæfi í sjálfu sér sem boða ný tækifæri til framþróunar ef að þeim er hlúð. Slíkt samfélag er eftirsóknarvert í heiminum í dag. Þetta vita Norðmenn, sem öðrum fremur kunna að hlúa að eigin strandbyggðum og draga fram fjölbreytileika þeirra og ríkidæmi. Framtíð Árneshrepps er björt ef einungis brot af hugtakinu "jafnræði til búsetu" fær raunverulegt inntak í íslenskum samtíma. Hvenær verður það?

Þau ykkar sem enn hafið ekki heimsótt Árneshrepp á Ströndum: Látið ekki happ úr hendi sleppa. Sumarið er ungt og öllum tekið fagnandi!

Við minnum á söfnun Félags Árneshreppsbúa til styrktar Guðmundi Þorsteinssyni á Finnbogastöðum. Reikningsnúmer: 1161-26-001050 Kennitala: 4510892509.


Endurreisn Finnbogastaða snertir okkur öll

Mundi og Einar KristinnEinar Kristinn Guðfinnsson landbúnaðarráðherra, Guðni Ágústsson fv. landbúnaðarráðherra og Össur Skarphéðinsson byggðamálaráðherra birtu sameiginlegt ávarp í Bændablaðinu:

Mánudaginn 16. júní brann íbúðarhúsið að Finnbogastöðum í Árneshreppi til kaldra kola. Guðmundur bóndi Þorsteinsson slapp við illan leik úr eldhafinu, en engu varð bjargað.

Ætt Guðmundar bónda hefur búið undir Finnbogastaðafjalli í tólf kynslóðir að minnsta kosti. Faðir hans reisti húsið sem brann árið 1938 og þar fæddist Guðmundur árið áður en Ísland varð lýðveldi. Hann er því 65 ára, nú þegar hann hefur misst eigur sínar og íbúðarhús.

En Guðmundur bóndi ætlar ekki að gefast upp. Hann er dyggilega studdur af börnum sínum, fjölskyldu, sveitungum og vinum. Nýtt íbúðarhús skal rísa að Finnbogastöðum áður en vetur gengur í garð á Ströndum.

Árneshreppur er minnsta og afskekktasta sveitarfélag á Íslandi, útvörður okkar í norðri. Þar er varðveitt merkileg saga um baráttu Íslendinga við ysta haf, saga sem við megum aldrei gleyma. Nú eru að vísu aðeins um 50 einstaklingar búsettir í hreppnum, en mannlífið þar er eigi að síður þróttmikið og fjölbreytt. Sauðfjárbúskapur er undirstaða byggðarinnar og nú eru í hreppnum 10 bú á 8 bæjum.

Í svo litlu samfélagi skiptir hver bær, hver einstaklingur, miklu máli fyrir heildina – og ekki bara Árneshrepp, heldur alla sem láta sig byggð á Íslandi varða. Endurreisn Finnbogastaða snertir okkur öll.

Nú hefur Félag Árneshreppsbúa stofnað styrktarreikning fyrir Guðmund á Finnbogastöðum, enda bæta tryggingar aldrei að fullu hið gríðarlega tjón og missi sem hann varð fyrir.

Við hvetjum alla til að leggja góðu máli lið, og tökum undir með vinum Guðmundar á Finnbogastöðum: Margt smátt gerir eitt hús við ysta haf.

Myndin: Einar Kristinn Guðfinnsson var á ferð í Árneshreppi á fimmtudag og föstudag. Hér eru ráðherrann og Mundi á Finnbogastöðum í Kaffi Norðurfirði, eftir velheppnaðan spjallfund á föstudaginn.

Við minnum á söfnun Félags Árneshreppsbúa til styrktar Guðmundi Þorsteinssyni á Finnbogastöðum. Reikningsnúmer: 1161-26-001050 Kennitala: 4510892509.


Þrír góðir

Þrír góðirAlbúm frá hátíðinni í Glym

Bræðurnir Ragnar og Óskar Torfasynir slógu í gegn í Glym, með leik, söng og grallaraskap.

Þeir ólust upp í Finnbogastaðaskóla, og bentu á að margir ættu fólkinu á Finnbogastöðum mikið að þakka.

Þá rifjuðu þeir upp, í vægast sagt léttum dúr, hvaða aðferðum Mundi hefði beitt þegar hann þjálfaði krakkana í Árneshreppi. Þau voru fræg fyrir að hirða flestöll verðlaun, hvar sem þau komu, og þetta þökkuðu bræðurnir ekki síst aðferðum Munda.

Á myndinni eru Ragnar og Óskar í dagskrárlok, ásamt Kristmundi Kristmundssyni, formanni Félags Árneshreppsbúa. Kristmundur gaf út tilkynningu um söfnun fyrir Munda, meðan ennþá rauk úr rústunum á Finnbogastöðum, og er óþreytandi í þágu málstaðarins.

Nú er búið að setja saman albúm með 23 myndum frá hátíðinni í Hótel Glym.

Við minnum á söfnun Félags Árneshreppsbúa til styrktar Guðmundi Þorsteinssyni á Finnbogastöðum. Reikningsnúmer: 1161-26-001050 Kennitala: 4510892509.


Glatt var í Glym: Takk, Hansína og Jón Rafn

Glatt í GlymGuðmundur á Finnbogastöðum á marga vini og velunnara. Um 400 gestir komu á hátíðina á Hótel Glym í Hvalfirði, sem staðarhaldarar héldu af mikilli rausn og stórhug. Alls safnaðist hátt í ein milljón króna á hátíðinni, og er það langt framar björtustu vonum.

Hansína B. Einarsdóttir og Jón Rafn Högnason  sem eiga og reka Hótel Glym með miklum glæsibrag létu alla innkomu af kaffihlaðborði renna í söfnunina til styrktar Guðmundi og endurreisnar Finnbogastaða.

Þá gáfu listamenn verk í uppboð sem Sveinn Kristinsson stjórnaði af röggsemi.

Sólin skein á hátíðargesti, sem sumir komu um langan veg til að sýna samstöðu með Guðmundi. Sjálfur kom Guðmundur að norðan og var manna glaðastur í góðra vina hópi.

Hansína og Jón, listamennirnir, starfsfólkið á Hótel Glym, gestirnir allir sem einn, verðskulda fjórfalt húrra fyrir stórkostlegan dag.

Við segjum nánar frá hátíðinni á Hótel Glym á næstu dögum.

Við minnum á söfnun Félags Árneshreppsbúa til styrktar Guðmundi Þorsteinssyni á Finnbogastöðum. Reikningsnúmer: 1161-26-001050 Kennitala: 4510892509.


Sjáumst á sunnudaginn

Mundi og Písl"Ég fer suður á morgun og hlakka mikið til sunnudagsins," sagði Mundi á Finnbogastöðum um leið og hann klóraði Písl á bakvið eyrað.

Læðan Písl, sem orðin er 18 ára, býr nú í gamla fjósinu á Finnbogastöðum, meðan hún bíður eftir að nýtt íbúðarhús rísi.

Á sunnudaginn er hátíð í Hótel Glym, Hvalfirði, þar sem öll innkoma af kaffihlaðborði og listaverkauppboði rennur í söfnunina til styrktar Guðmundi.

Guðmundur sagðist orðlaus yfir þeim mikla velvilja, vináttu og stuðningi sem hann hefði fundið eftir brunann ógurlega 16. júní.

Við hvetjum alla sem vettlingi valda að koma í Hótel Glym á sunnudaginn, milli 14 og 18. Allir eru hjartanlega velkomnir.

Hótel Glymur stendur á frábærum útsýnisstað í kjarri vaxinni hlíðinni ofan við Saurbæjarkirkju á Hvalfjarðarströnd, rétt vestan við Ferstiklu. Það tekur um 40 mínútur að keyra frá Reykjavík að Hótel Glym með því að fara Hvalfjarðargöngin en um það bil 1 klukkustund og 10 mínútur að keyra Hvalfjörðinn.

Sjáumst á sunnudaginn.

Við minnum á söfnun Félags Árneshreppsbúa til styrktar Guðmundi Þorsteinssyni á Finnbogastöðum. Reikningsnúmer: 1161-26-001050 Kennitala: 4510892509.


Mundi og Siggi byrjaðir að saga fyrir nýja húsið!

Mundi og Siggi saga"Þetta skotgengur, Siggi er svo assgoti flinkur á sögina," sagði Mundi, þegar gesti bar að garði í skemmuna í Litlu-Ávík á miðvikudag.

Þar eru Sigursteinn bóndi og Mundi byrjaðir að saga rekavið, sem notaður verður í uppslátt að grunni nýja hússins á Finnbogastöðum.

Gert er ráð fyrir að nýja húsið á Finnbogastöðum verði um 150 fermetrar og að fyrsta skóflustungan verði tekin eftir tvær vikur.

Söfnun Félags Árneshreppsbúa hefur gengið vel, og ljóst að margir vilja leggja Munda lið og stuðla um leið að eflingu byggðar í fámennasta og afskekktasta sveitarfélagi landsins.

Söfnunin nær hámarki á sunnudaginn, þegar glæsilegt kaffihlaðborð verður í Hótel Glym, Hvalfirði. Þangað mætir Mundi, og vonandi sem allra flestir Strandamenn og aðrir vinir Árneshrepps.


Takið sunnudaginn frá: Hlaðborð og skemmtun í Hótel Glym til styrktar Munda

Linda, Mundi, SteiniKaffihlaðborð, skemmtidagskrá og listaverkauppboð verða í Hótel Glym í Hvalfirði á sunnudaginn, 6. júlí, og rennur öll innkoma dagsins óskipt á styrktarreikning Guðmundar á Finnbogastöðum.

Mundi ætlar að sjálfsögðu að mæta, og fleiri koma úr Árneshreppi.

Staðarhaldarar á Hótel Glym eru Jón Rafn Högnason og Hansína B. Einarsdóttir, sem bæði eru ættuð úr Árneshreppi. Þau hafa rekið Hótel Glym með miklum myndarbrag frá árinu 2001.

Kaffihlaðborðið á sunnudag verður milli 14 og 18 og er þetta frábært tækifæri til að gera allt í senn: Hitta Strandamenn úr öllum áttum, njóta ljúffengra veitinga og skemmtilegrar dagskrár og leggja góðu máli lið.

Hótel Glymur stendur á frábærum útsýnisstað í kjarri vaxinni hlíðinni ofan við Saurbæjarkirkju á Hvalfjarðarströnd, rétt vestan við Ferstiklu. Það tekur um 40 mínútur að keyra frá Reykjavík að Hótel Glym með því að fara Hvalfjarðargöngin en um það bil 1 klukkustund og 10 mínútur að keyra Hvalfjörðinn.

Látið endilega berast meðal Strandamanna og annarra vina Árneshrepps að leiðin liggi í Hvalfjörð á sunnudaginn.

Myndin: Mundi með Lindu og Þorsteini.

Við minnum á söfnun Félags Árneshreppsbúa til styrktar Guðmundi Þorsteinssyni á Finnbogastöðum. Reikningsnúmer: 1161-26-001050 Kennitala: 4510892509


Prentmet leggur lið

Finnbogastaðir1 16. júní 2008Margir leggja okkur lið í söfnuninni vegna endurreisnar Finnbogastaða.

Nú hefur Prentmet bæst í hópinn, með því að prenta ókeypis kort og veggspjöld með upplýsingum um söfnunina, reikningsnúmer og kennitölu.

Upplagt fyrir vini Finnbogastaða að hafa nokkur slíkt kort, sem eru á stærð við nafnspjöld, í veskinu og gauka að vinum og kunningjum.

Þeir sem vilja fá kort til dreifingar geta hafa samband við Kristmund Kristmundsson í Reykjavík í síma 898 2441 eða Hrafn Jökulsson í Trékyllisvík í síma 4514026.

Söfnunin gengur vel, en betur má ef duga skal. Hver einasta króna fer beint á styrktarreikning Guðmundar á Finnbogastöðum. Ekki króna fer í kostnað, því allt er unnið í sjálfboðavinnu -- einsog vera ber.

Við minnum á söfnun Félags Árneshreppsbúa til styrktar Guðmundi Þorsteinssyni á Finnbogastöðum. Reikningsnúmer: 1161-26-001050 Kennitala: 4510892509


Guðni í heimsókn til Munda

Guðni og MundiGuðni Ágústsson formaður Framsóknarflokksins heilsaði upp á Munda á Finnbogastöðum á sunnudagskvöldið, vottaði honum samúð fyrir missinn í brunanum mikla og hét stuðningi við endurreisn Finnbogastaða.

Guðni er á ferð ásamt eiginkonu sinni, Margréti Hauksdóttur, og systur hennar, Vigdísi Hauksdóttur.

Þau voru boðin í kvöldverð hjá oddvitahjónunum á Krossnesi og síðan í kvöldkaffi í Bæ, þar sem kræsingar voru á boðstólum.

Formaður Framsóknarflokksins hreifst af baráttuhug Guðmundar bónda Þorsteinssonar, en frá fyrstu stundu hefur ekkert annað en uppbygging Finnbogastaða komið til greina.

Á morgun, mánudag, kl. 10 fyrir hádegi verður Guðni með kaffispjall í Kaffi Norðurfirði. Þar verður efalítið rætt um endurreisn Finnbogastaða -- og framtíð byggðar í Árneshreppi.

Við minnum á söfnun Félags Árneshreppsbúa til styrktar Guðmundi Þorsteinssyni á Finnbogastöðum. Reikningsnúmer: 1161-26-001050 Kennitala: 4510892509


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband